Tilveran

Hver er þín afsökun?

Hver er þín afsökun?

Í amstri dagsins hættir okkur til að gleyma mikilvægi þess að hlúa að heilsunni. Að sinna sér er ekki sjálfselska, heldur nauðsynlegt bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu.

Við vitum flest hvað lætur okkur líða vel eins og hreyfing, hollur matur, nægur svefn, slökun og jákvæð samskipti. Þrátt fyrir það eigum við oft erfitt með að forgangsraða sjálfum okkur.

Við finnum afsakanir eins og „ég hef ekki tíma”, „ég geri þetta seinna” eða við veljum að setja okkur í annað sætið af því að önnur verkefni eru mikilvægari. Svo mögulega vöknum við ekki fyrr en allt er komið í óefni og líkamleg og/eða andleg líðan orðin það slæm að við viljum helst hoppa á vagn skyndilausna til að laga ástandið.

Við hreinlega látum aðstæður stjórna okkur í stað þess að taka ábyrgð á eigin líðan og leggja þá vinnu á okkur sem þarf. Það verður einfaldara að grípa í koffín, sykur, skjái eða annað sem gefur skammvinnan létti en leysir ekki undirliggjandi vanlíðan. Slíkt „quick fix“ getur jafnvel aukið streitu, þreytu og vanlíðan til lengri tíma.

Að hlúa að sjálfum sér þarf ekki að kosta mikinn tíma. Það getur verið göngutúr, stutt slökun, að lesa nokkrar blaðsíður í bók, slökkva á símanum í klukkutíma, tala við góðan vin eða fara í heitt bað. Mikilvægast er að taka meðvitaða ákvörðun um að rjúfa vítahring afsakana og forgangsraða eigin heilsu. Þegar við gefum okkur rými til að hlusta á eigin þarfir, minnkar streita, orka og einbeiting eykst og lífsgæði batna.

Að hlúa að sjálfum sér er því ekki munaður sem aðeins útvaldir geta leyft sér – heldur forsenda þess að við getum staðið með okkur sjálfum og öðrum og farið í brosandi í gegnum skyn og skúri.

Í dag er einnig mikið talað um að smáskammta sér allskonar hugbreytandi efni, hvernig væri að byrja að smáskammta sér heilbrigðan lífsstíl, taka sér mínútur hér og þar yfir daginn og gera það sem raunverulega eflir þig og styrkir til lengri tíma.

Höfundur: Aðalheiður Jensen

Deila :